Ömmur eru mikilvægar

Ömmur eru mikilvægar
Ömmur eiga alltaf kleinur

Enginn tími til að elska

Það er í ýmis horn að líta þegar maður er ungt foreldri og verið er að reyna að fóta sig á hálu dansgólfi lífsins. Koma sér áfram í vinnu og sinna henni bærilega, halda lífi í ástinni ef hún er til staðar og halda sjálfum sér á floti og félagslega virkum. Þar fyrir utan þar þarf að sinna einhverjum áhugamálum og heilsunni einnig. Hverjum datt í hug að hafa aðeins 24 tíma í sólarhringnum? 

Á sama tíma fer mikill orka í að styrkja undirstöðurnar undir framtíð barnanna okkar þannig að þau komi vel undan vetri en það er hvorki einfalt verk né löðurmannslegt. Það er hörku púl. 

Við hjá Ömmubakstri rákumst á þessa skemmtilegu grein á Nútímanum og við viljum endilega deila henni með ykkur því að það er margt til í henni. Hún fjallar um hvað Ömmur eru ótrúlega mikilvægar. Ekki viljum heldur vera að endursegja hana heldur lesið bara sjálf. Reyndar finnst okkur hlutverk afanna vera frekar þunnt þarna en það er önnur saga því við erum Ömmubakstur. Smelltu hér til að lesa greinina.

Að vera foreldri

Flest okkar verðum við foreldrar vonandi einn daginn og mörg okkar eru það nú þegar og vonandi í framhaldi af því afar og ömmur. En það er nú samt svo skrítið að börnin okkar verða alltaf „litlu börnin“ okkar og það er eiginlega sama hvaða súpu þau hafa komið sér í þá eru það nú yfirleitt þannig að það eru foreldrarnir sem standa á bakkanum og rétta þeim hjálparhönd fyrstir. 

Börn verða alltaf börn sama hvort þau verða forsetar, kóngar eða bakari í huga foreldra þeirra. Alltaf er þetta „litla barnið“ sem varla getur fótað sig án leiðsagnar í lífinu. Vitandi það sjálf að sem börn þá  leituðum við oft til okkar foreldranna með áhyggjur, spjall og ráð. Þeirra er síðan alla tíð sárt saknað þegar þau leggja á stað með Karon yfir fljótið Akkeron.  

Það er sama hvert við förum um heiminn allstaðar er hugsunin mjög áþekk varðandi þetta foreldrahlutverk. Flestir foreldrar leggja hart að sér til að reyna að hjálpa börnunum á einn eða annan máta svona eins og þau telja sig geta. 

Rangar áherslur?

Því miður höfum við hér á vesturlöndum tekið mörg skref til baka í þessum málum en við sjáum það víða og þá sérstaklega suður í löndum að þegar börnin giftast þá er bara einni hæð bætt ofna á húsin. Hvað lífið væri nú einfaldara ef stórfjölskyldan byggi öll á sama stað, hvað mörg bílferðin myndu sparast, innkaup, ferðalög, pössun og tala nú ekki um ættar- og fjölskylduböndin  myndu styrkjast. 

Það þyrfti ekki neinn hulduher af ömmum út um allar trissur til að bjarga málunum. 

Nú er  bara að setjast niður og skipuleggja upp á nýtt íbúðarbyggðir borgarinnar og í staðinn fyrir að bjóða upp á hesthús í íbúðarbyggð því ekki að bjóða upp á byggð fyrir stórfjölskyldur. Hvað mikið myndi ekki sparast og ekki gleyma því að það væri alltaf ömmu og mömmu matur alla daga og að sjálfsögðu ömmubakstur því hann er vitanlega bestur. 

Lifið heil


Svæði

Gæðabakstur \ Ömmubakstur ehf.

Lynghálsi 7 \ 110 Reykjavík | Sími: 545 7000 \ Neyðarnúmer: 858 0310 \ kt: 550595-2499 \ Vsk.nr. 49516 | gaedabakstur@gaedabakstur.is