Furðulegustu hlutirnir sem fólk setur á Laufabrauð

Jólin nálgast

Það er að kominn annar í aðventu og margir í glimrandi góðri jóla sveiflu núna enda er þessi árstími sérlega skemmtilegur. Þrátt fyrir að myrkrið sé svo þykkt stundum að það liggur við að það megi skera það eins og brauð. Það verður alltaf léttara yfir þegar það fer að snjóa, það verður bjartara.

Við hjá Gæðabakstri/Ömmubakstri gerum einfaldlega ráð fyrir að sem flestir séu núna komnir vel á veg með allan undirbúning og að sjálfsögðu laufabrauðsbaksturinn þar með talinn, eins og lög gera ráð fyrir.

Við hjá Bakarablogginu vorum spurð að því um daginn, af einum góðkunningja okkar, hvernig eigi að bera fram laufabrauð eða réttara sagt hvernig er best að borða það?

Við höfðum svo sem aldrei velt því neitt sérstaklega fyrir okkur, en þetta var áhugaverð spurning.

Hvernig snæðir þjóðin laufabrauðið?

Þannig að við brugðum undir okkur betri fætinum og fórum í vetfangskönnun norður í land á nokkuð fjölmennan vinnustað. Heimavellir laufabrauðsins.

Þarna starfaði, að því virtist vera, vel upplýst fólk og að stofni til mest af íslensku bergi brotið. Enda það tilgangslaust að spyrja aðrar þjóðir út í okkar göfugu og þjóðlegu siði, töldum við.

Við vorum nú ekki búin að vera lengi á staðnum þegar háværar og „skemmtilegar“ umræður höfðu spunnist um það hvernig á að borða laufabrauð. Kannski aðeins of háværar að okkar mati, enda þetta greinilega mikið tilfinninga mál hjá sumum. Að lokum urðum við að skerast í leikinn þegar hnefarnir voru komir á loft og umræðan orðin særandi rifrildi.

Sumum ofbauð það sem öðrum fannst sjálfsagt.

Laufabrauð - Salt

Viðkvæma reynsla

En þegar um hægðist og fólk var farið að róa sig aðeins þá króuðum við af í einu horninu bráðhuggulega konu á besta aldri. Hún hafði eftirfarandi reynslusögu að segja um sína laufabrauðsneyslu:

„Stundum ét ég það eintómt eða kannski bara með smjöri, kannski örlítið hangikjöt líka ef það er til, en maðurinn minn setur síróp á!!!“ Og hún hélt áfram.“ Hvað gerir þið, hafið þið þarna fyrir sunnan heyrt um síróp? Ljónasírópið? 

Síróp er í dag orðið jafn mikilvægt og Ora baunadósin á mínu jólaborði heima, en það skal viðurkennast að stundum er þetta dálítið sóðalegt.
Ég hafði aldri prufað þetta áður en ég kynntist honum, en þetta er sælgæti“ sagði hún og dæsti með sælu bros.

Við spurðum aðra konu einnig ættaða úr sömu sveit um hennar venjur en hún kannaðist ekki við sírópið og taldi að það væri innfluttur ósiður ábyggilega ættaðan að sunnan. Hún, aftur á móti, hefur heyrt talað um það að setja sykur á brauðið og einnig að mikið magn af góðu smjöri á brauðið væri sælgæti.

Eða eins og hún sagði orðrétt:

„Það er ekki óalgengt að við hérna í þessari sveit setjum einnig smjör á brauðið og það er verulega gott. En þetta með sýropið hlýtur að vera frekar erfitt því maður verður allur út bíaður“ sagði hún og skelli hló.

„Hvernig heldur þú að það sé að opna pakkana allur klístraður í sýrópi“ hélt hún áfram hlæjandi.  

„En það er meira sem ég hef séð. Það er til fólk hér fyrir norðan sem sykrar laufabrauðin, þegar þau eru tekin upp eftir steikinguna, en það er nú samt frekar sérstakt. Smjör er betra! Stundum eintómt þegar ég er að baka og er að narta í það – en sykur, það er eitthvað að þessu fólki“ sagði hún og hristi höfuðið.

Við vitum einnig að sumir borða afskurðinn með sírópi. Afskurðurinn er bestur finnst sumum en hann er á iðulega steiktur aðeins meira og borðaður strax því þá er hægt að spara kökurnar.

Annar viðmælandi okkar taldi að rjúpusósan og laufabrauðið væri alveg ómissandi samsetning.

„Einnig það að á Jóladag  þá væru þau hjónin alltaf með hangikjöt og þá væri það toppurinn  að maka laufabrauðið upp úr uppstúfinum - það nálgast alsælu“ – sagði hann fjarrænn til augnanna og skelli hló.

Við heyrðum einnig frá stúlku að vestan sem kom frá afar fágaðri laufabrauðs fjölskyldu og sem hafði verið ákaflega ósátt við fyrrverandi sambýlismanninn sinn. Honum hefði algjörlega verið fyrirmunað að temja sér heilbrigða borðsiði hvað varðaði laufabrauðið, hann gat víst ekki á heilum sér tekið nema á jólaborðinu væri pakka- kartöflumús, dísæt að sjálfsögðu. Þessu hafði hann síðan makaði hnausþykkt á laufabrauðið og hámað í sig.

Þetta var henni mikill skapraun og hneisa í fjölskylduboðunum enda hefð sambúðin ekki staðið lengi; eins og gefur að skilja.

Snætt á misjafnan mátaLaufabrauð með áleggi

En að öllu glensi slepptu þá var það mjög gaman að spyrja fólk að því með hverju það borðaði laufabrauðið sitt. Spurningin kom frekar flatt upp á marga en flestir snæða það nú bara eitt og sér með hangikjötinu.Til gamans þá tókum við saman nokkrar þjóðlegar laufabrauðsátvenjur sem við heyrðum í okkar óformlegu könnun.

Með sykri (stráðum yfir).
Með sykri (stráðum yfir strax eftir steikingu)
Með sýropi, helst ljóna (mynd af ljóni utan á dósinni).
Smurt og makað með uppstúf.
Smurt og makað með baunauppstúf.
Smurt með góðu íslensku smjöri.
Smurt með sætri kartöflumús.
Með rauðbeðasalati.
Með síldarsalati.
Með ítölsku salati og hangikjöti.
Með síld.
Með osti og skinku (morgunmatur).
Með ítölsku salati og hangikjöti.
Með engu (vinsælast).

Það eru ekki neinar fastar reglur hvernig á að snæða laufabrauðið og við teljum að það sé mikilvægast að láta ímyndunaraflið ráða og njóta þess á sem fjölbreyttasta máta. Sumir snæða líka laufabrauð á Þorranum.

Gaman væri að heyra frá ykkur hvernig þessu er háttað á þínu heimili.

Lifið heil


Svæði

Gæðabakstur \ Ömmubakstur ehf.

Lynghálsi 7 \ 110 Reykjavík | Sími: 545 7000 \ Neyðarnúmer: 858 0310 \ kt: 550595-2499 \ Vsk.nr. 49516 | gaedabakstur@gaedabakstur.is