Flýtilyklar
Laufabrauðið er á leiðinni
Framleiðslan á steiktu laufabrauði er komin á fullt hjá Gæðabakstri en það mun streyma í verslanir í október og nóvember. “Við hófum framleiðsluna á ósteiktu laufabrauði en nú er framleiðslan komin yfir í það steikta,” segir Gísli Þorsteinsson sölu- og markaðsstjóri Gæðabaksturs.
Talið er að laufabrauðsgerðina megi rekja til 18. aldar. Minnst er á það í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá fyrri hluta aldarinnar. Þar segir að laufabrauð sé sælgæti Íslendinga, ef marka má Wikipedia. Í upphafi var laufabrauðsástríðan fyrst og fremst á Norðurlandi en þokaðist síðan hægt suður yfir heiðar. Á liðnum áratugum hefur laufabrauðið áunnið sér fastan sess í jólahaldi þúsunda íslendinga um allt land.
Gísli segir að laufabrauðið passi vel með flestum jólamat, með eða án smjörs, Þó séu margir sem fái sér eitthvað allt annað ofan á laufabrauðið, listinn sé langur og fjölbreyttur. “Fólk fær sér laufabrauð með uppstúf, sýrópi, sykri, sætri karóflumús, ítölsku salati og síld, svo dæmi séu tekin.”
Hann segir að félagslegi þátturinn sé afar mikilvægur í laufabrauðsgerðinni. Mörg dæmi eru um að stórfjölskyldur eða vinahópar komi saman á aðventunni til að skera út og steikja laufabrauð. Við útskurðinn sé æskilegt að hafa gott laufabrauðsjárn til verksins þó hver útskurðarmaður geti að sjálfsögðu skapað sína eigin list. “Aðrir kjósa að fá laufabrauðið steikt og tilbúið til neyslu.”
Hann segir að þó nokkur nýsköpun hafi orðið í þróun á laufabrauði en nú sé hægt að fá vegan laufabrauð og svo laufabrauð með íslensku blóðgergssalti.