Topp 20 furðulegustu hlutirnir sem Íslendingar setja á laufabrauð

Hvað borðum við með laufabrauðinu?

Hátíðin er hinumegin við hornið enn einu sinni; eins og svo oft áður þá er iðulega eitthvað eftir ógert.  Hjá mörgum er það orðið hluti af jólunum það að vera með eitthvað ógert og þá sérstaklega á síðustu stundu.

Mörgum finnst þetta reyndar algjörlega óþolandi en öðrum mjög spennandi og er orðin venja eins og að geyma það að kaupa síðustu gjöfina fram á Þorláksmessu. Eingöngu til þess eins að eiga erindi í miðbæinn og geta öslað slabbið í ökkla, kannski rekist á gamla kunningja, eða vin, kaupa sér bolla af heitu kakó og rápa. Þetta er hápunktur sumra.

Fáar tilfinningar eru samt betri og skemmtilegri en að geta slakað aðeins á heima vitandi það að brátt verður hátíð í bæ.

Við hjá Bakarablogginu höfum eins og svo margir aðrir staðið í ströngu undanfarið og bakað laufabrauð út í eitt, svo allir geti nú notið þessa að eiga náðug laufabrauðsjól. En við höfum líka dundað okkur við það á sama tíma að skoða það hvernig þjóðin gæðir sér á laufabrauði.  Það verður að segjast að þar var margt sem kom verulega á óvart.

Ótrúleg fjölbreytni

Í okkar villtustu draumum þá datt okkur engan veginn í hug mjög svo sérstakar „matar venjur“ fólks og það yfir hátíðarnar. Það var svo sem ýmislegt sem við höfðum heyrt varðandi laufabrauðsátið.

Þessi ótrúlega notkun og beiting á frjálsu og frjóu ímyndunarafli hafði okkur samt ekki órað fyrir.

Það kom einnig berlega í ljós í þessari könnun að þarna úti eru harðsvíraðir laufabrauðs notendur sem ekki víla fyrir sér að setja ótrúlegustu hluti ofan á fagurlega útskorið brauðið, án þess að blikna, þetta er einfaldlega efni í frekari rannsóknir.

Vinsældarlistinn

Tölur yfir laufabrauð

Niðurstaða: Hvað setur þú ofan á laufabrauð?

Þeir sem vilja bara smjör á laufabrauðið sitt var næstum meirihlutinn eða um 47% , sem er eiginlega óskiljanlegt því þar er mikil list og löng æfing að smyrja laufabrauð, án þess að það brotni ekki.

Síðan nokkuð langt á eftir koma sérvitringarnir sem vildu laufabrauðið ómengað og hreint eða um 18%. Þetta er hugsanlega fólk sem hefur áður reynt að smyrja brauðið en er löngu búið að gefast upp á molunum.

Næstir koma síðan þeir sem mætti kalla þjóðlega fram úr hófi og kjósa að setja hangikjöt ofan skífuna, þeir eru nú ekki nem um 9%.

Það má nú samt gera ráð fyrir því að flestir borði laufabrauðið með hangikjötinu á jóladag en margir hafi hangikjötið á jóladag og frekar „hátíðar“mat í takt við gamlar fjölskylduhefðir á aðfangadag.

Rjúpnasósa

Laufabrauðsálegg skrítin

Niðurstaða: Skipting þeirra sem setja ekki þetta hefðbundna

Atriði eins og að dýfa laufabrauðinu í rjúpusósu kom fyrir hjá nokkrum og er greinilegt merki um að sumir kunna sig engan veginn og það kæmi ekki á óvart að það séu sömu aðilar og sem sögðust mylja brauðið út út á jólaísinn. Þetta var hreint ótrúleg lesning.

En það var meira sem kom spánskt fyrir sjónu og er engu líkara en að fólk sitji við jólaborðið og velti því fyrir sér hvað er hægt að setja næst ofan á laufabrauðið. Salat af ýmsum uppruna kom oft fyrir sem og magaálar og rúllupylsur. Sykur og síróp var minna vinsælt en kom samt fyrir.

Þarna inn læddist síðan fólk sem er greinilega af erlendu bergi brotið og gerir rannsóknina örlítið ónákvæma, samt mátti þekkja smærri þjóðir þarna út eins og Norðmenn og Svía.

Norðmenn eru væntanlega þeir sem vildu hafa brúnost (mysuostur) og lefsur, sem eru norskar pönnukökur og ekkert nema stæling á okkar íslensku. Eins og svo margt annað í Noregi.

Hér eru topp 20 furðulegustu svörin sem við fengum í könnuninni:

1. Með kaffi
2. Nutella
3. Gott í eðlu
4. Kokteilsósu
5. Saltað selspik
6. Dýft ofan í heitt súkkulaði
7. Brytja það út á ísinn
8. Laxapaté
9. Reykt laxamús
10. Brúnostur Norskur
11. Síld
12. Tvíreykt hangikjöt, piparrótarrjómi og melóna, grafinn lax, reyktur lax, brytjað niður í súpu, laxakæfa og salat
13. Með soðnum fisk, kartöflum og tómatssósu
14. Luffsulini (væntanlega lefsur)
15. Kartöflur í þunnum sneiðum
16. Rauðrófur
17. Relish
18. Hangikjötssalat
19. Spínat ídýfa
20. Kartöflusalat

Svona að öllu gríni sleppt þá er það skemmtilegt að sjá hversu margir njóta laufabrauðsins yfir hátíðar og við höfum verulega lagt okkur fram við að gera góð brauð sem passa flestu.

Í framhaldi af þessu þá viljum við hjá Gæðabakstri/Ömmubakstri óska öllum innilega gleðilegra jóla.

Lifið heil.

mynd af laufabrauði


Svæði

Gæðabakstur \ Ömmubakstur ehf.

Lynghálsi 7 \ 110 Reykjavík | Sími: 545 7000 \ Neyðarnúmer: 858 0310 \ kt: 550595-2499 \ Vsk.nr. 49516 | gaedabakstur@gaedabakstur.is