Flýtilyklar
Ömmuflatkökur í 70 ár
Vestmannaeyingarnir Friðrik Haraldsson bakarameistari og Steina Margrét Finnsdóttir, eiginkona hans, fluttu í Kópavog 1952 og stofnuðu Bakarí Friðriks Haraldssonar. Ömmubakstur var vörumerki þeirra með áherslu á framleiðslu á flatkökum, kleinum, kleinuhringjum og laufabrauði. „Flatkökubaksturinn var gamall draumur hjá pabba,“ segir Haraldur Friðriksson, sem tók við fyrirtækinu af foreldrum sínum. „Þegar hann var strákur í sveit fylgdist hann alltaf með ömmu sinni baka flatkökur og hann vildi baka jafngóðar flatkökur og hún bakaði.“
Baksturinn hófst í eldhúsinu heima hjá þeim á Þinghólsbraut í Kópavogi og dreifingin í verslanir var jafnframt á þeirra höndum. Brauðmetinu var strax mjög vel tekið, fyrirtækið stækkaði í takt við aukna sölu, 1975 færðist reksturinn í stærra húsnæði á Kársnesbraut og þegar bakaríið sameinaðist Gæðabakstri 2008 var fyrirtækið í fararbroddi á sínu sviði. „Þetta var fjölskyldufyrirtæki og við seldum mest allra af flatkökum og laufabrauði,“ segir Haraldur. „Það var þá elsta starfandi fyrirtækið í Kópavogi,“ bætir Gísli Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri Gæðabaksturs-Ömmubaksturs, við og segir að síðan hafi verið bætt í.
Í viðhorfskönnun Gallup fyrir Gæðabakstur-Ömmubakstur fyrr á árinu hafi komið fram að 92% landsmanna borði flatkökur og tveir af hverjum þremur borði oftast flatkökur frá fyrirtækinu.
Haraldur ólst upp með Ömmubakstri. Hann segir að þegar eldhúsið hafi ekki nægt fyrir framleiðsluna hafi hún flust í kjallarann og síðan út í bílskúr eftir að hann hafi verið reistur. Þetta hafi verið dæmigert frumkvöðlastarf þar sem öll hjálp hafi verið þegin. „Til dæmis hjálpaði kona í næsta húsi við baksturinn,“ segir hann en Haraldur byrjaði að vinna í fyrirtækinu sem unglingur um 1960.
Ingólfur Garðarsson var bakarameistari hjá Ömmubakstri og er enn starfandi hjá Gæðabakstri-Ömmubakstri. Hann segir að Haraldur hafi talað um það að flatkökurnar og kleinurnar hafi ekki síst orðið fyrir valinu vegna þess hvað þær tækju lítið pláss og væru því auðveldar í flutningi.
Fyrir 40 árum störfuðu 18 manns hjá Ömmubakstri, einkum konur, og leystu skólakrakkar þær af á sumrin. Við sameininguna voru um 63 manns hjá Gæðabakstri-Ömmubakstri en fleiri fyrirtæki eins og til dæmis Breiðholtsbakarí, Ragnarsbakarí og Kristjánsbakarí hafa sameinast fyrirtækinu.
Vilhjálmur Þorláksson stofnaði Gæðabakstur 1993 og er enn framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Til að byrja með var hann einn allt í öllu en hjólin hafa snúist hratt og vöruúrvalið aukist til muna, en síðan 2010 hefur öll framleiðsla verið á Lynghálsi í Reykjavík. . „Um 150 manns af 17 þjóðernum vinna hjá Gæðabakstri-Ömmubakstri og er unnið nánast allan sólarhringinn nær alla daga ársins,“segir Gísli. Hann bendir á að við allar sameiningar hafi vöruúrval aukist og þó Gæðabakstur-Ömmubakstur bjóði ýmsar tegundir af flatkökum eins og til dæmis lágkolvetnaflatkökur og heilkornaflatkökur standi hefðubndnar Ömmubaksturs-flatkökur alltaf fyrir sínu.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 12. september.