Laufabrauð - Ómissandi jólahefð

Er nálgast jólin hefjumst við hjá Ömmubakstri handa við laufabrauðsgerð. Viljum við gera góða jólahátíð enn betri og leggjum því ríka áherslu á að laufabrauðin okkar séu fyrsta flokks.

Laufabrauðið er gömul íslensk hefð sem hefur verið rakin allt aftur til 18. aldar. Þegar gefa átti börnum brauð að bíta í á jólunum þurfti líka að taka með í reikninginn að mjöl var af skornum skammti. Deigið var því flatt þunnt út, mynstur skorin í kökurnar og þær loks steiktar í feiti. Þrátt fyrir að skortur á hveiti sé ekki lengur vandamál þá hefur laufabrauðshefðin haldist. Laufabrauð er í raun órjúfanlegur hluti af jólahefðum margra Íslendinga. Það passar vel með flestum jólamat, með eða án smjörs.

Félagslegi þátturinn er afar mikilvægur í laufabrauðsgerðinni. Mörg dæmi eru um að stórfjölskyldur eða vinahópar komi saman á aðventunni til að skera út og steikja laufabrauð. Aðrir kjósa að fá laufabrauðið steikt og tilbúið til neyslu. Mætum við óskum beggja hópa og getur þú fengið bæði steikt og ósteikt laufabrauð frá Ömmubakstri í næstu verslun. Jafnframt framleiðum við laufabrauðsbita, með og án kúmens.

Við útskurðinn er æskilegt að hafa gott laufabrauðsjárn til verksins þó hver útskurðarmaður geti að sjálfsögðu skapað sína eigin list. Sýnum við hér nokkur einföld en klassísk mynstur.

Við mælum með því að fólk pikki létt í kökurnar að loknum útskurði en það kemur í veg fyrir að stórar loftbólur myndist við steikinguna.

Laufabrauðið er svo steikt í heitri djúpsteikingarfeiti eða tólg í stórum og víðum potti. Góð þumalputtaregla er að feitin sé tilbúin þegar byrjar að rjúka úr henni. Þá er ein laufabrauðskaka lögð í feitina í einu og steikt í nokkrar sekúndur áður en henni er svo snúið við. Gott er að nota gaffla eða langa prjóna til verksins.Þegar kakan er gullinbrún er hún veidd upp, lögð á eldhúspappír og pressuð létt með flötum hlut. Skal þetta endurtekið með hverja köku.

Steikt laufabrauð er best að geyma í lokuðu íláti á þurrum stað við stofuhita og er geymsluþolið allt að 4 mánuðir. Ósteikt laufabrauð skal alltaf geyma í frysti (-18°C) en þar geymist það vel í 3-4 mánuði. Ráðlagt er að taka laufabrauðið úr frysti sólarhring fyrir skurð og steikingu og leyfa því að þiðna í kæli.


Svæði

Gæðabakstur \ Ömmubakstur ehf.

Lynghálsi 7 \ 110 Reykjavík | Sími: 545 7000 \ Neyðarnúmer: 858 0310 \ kt: 550595-2499 \ Vsk.nr. 49516 | gaedabakstur@gaedabakstur.is